Námsskrá

Með "Aðalnámskrá leikskóla" sem stefnumótandi leiðarvísi er lögð áhersla á vinnu með tjáningu í Jörfa. Í hugtakinu tjáning felst sköpun, gleði og hreyfing.

Uppeldisstefnan sem leikskólinn vinnur eftir er hugmyndafræði John Deweys kennara og heimspekings. Eitt af einkunnarorðum Deweys er að læra af reynslunni (learning by doing) þar sem sköpunargleði og frumkvæði barnsins er í brennidepli. Haft er í huga það sem Dewey sagði : „Það sem besta og vitrasta foreldri vill barninu sínu til handa verður samfélagið að vilja fyrir öll börn". Lögð er áhersla á jákvæða sjálfsmynd, sjálfstæði og frumkvæði í uppeldinu. Áhugi, sköpun og skoðanir eru virtar í samspili barna við fullorðna og annað umhverfi. Fullorðnir eru lykilpersónur í lífi barna við að skapa þeim tækifæri til aukins þroska.

Einnig kennum við tilfinningatjáningu samkvæmt hugmyndum sálfræðinganna Helen Webster og Lorraine Parker sem gefið hafa út bókina „Taming The Dragon, learning to benefit from feelings". Þetta er 12 vikna námsefni í lífsleikni sem unnið er með á hverju hausti, þar sem börnin læra að skilja, túlka og setja orð á líðan sína. Taming The Dragon er forvarnarnámsefni gagnvart ofbeldi og óæskilegri hegðun þar sem reiðistjórnun er einnig kennd.

Kennsluefnið „Stig af stigi" er notað til þess að efla félags- og tilfinningaþroska barnanna. „Stig af stigi" inniheldur hnitmiðuð kennslugögn sem ætluð eru til þess að þjálfa börn í að gera sér grein fyrir eigin tilfinningum sem og annarra, kenna þeim að leysa úr vanda, umgangast aðra og taka tillit til tilfinninga þeirra.

Hugmyndafræði Kari Lamer um félagsfærniþjálfun, með áherslu á jákvæða styrkingu, er kennsluefni sem notað er til þess að styrkja samkennd, félagsfærni, sjálfsstjórn, sjálfsöryggi, leik, gleði og kímnigáfu. Lögð er áhersla á að börnin læri að setja mörk og standast hópþrýsting.

Við vinnum með kennsluefni Lífsmennt með elstu börnunum í leikskólanum. Þetta er alþjóðlegt námsefni sem er notað í að minnsta kosti 64 löndum. Höfundar bókarinnar eru Diane Tillman og Diana Hsu. Lífsmennt er óháð stofnun studd af Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna. Stofnunin varð til í framhaldi af alþjóðlegu verkefni sem fólst í að beina athygli að tólf alþjóðlegum gildum: friði, virðingu, kærleika, ábyrgð, hamingju, samvinnu, heiðarleika, auðmýkt, umburðarlyndi, einfaldleika og einingu. Hvatinn á bak við þetta námsefni eru áhyggjur margra af því að börn verði í auknu mæli fyrir áhrifum af ofbeldi og að virðing þeirra fyrir öðrum fari dvínandi. Að margra mati er hægt að draga úr þessum vanda með aukinni áherslu á fræðslu um lífsgildi. Með réttum viðfangsefnum er hægt að efla sjálfsvirðingu, gagnrýna hugsun, tilfinningagreind og skapandi tjáningu.

Einingakubbar sem uppeldisfrömuðurinn Caroline Pratt hannaði eru notaðir samkvæmt hugmyndum hennar. Hönnun og notkun einingakubba er sótt í hugmyndafræði framfarastefnunnar og höfundar hennar, John Deweys. Að læra um eiginleika efnis er grundvöllur vísindanáms. Börnin læra smám saman um eiginleika kubbanna og mismun þeirra og læra að bera þá saman. Kubbarnir eru hannaðir í ákveðnum stærðfræðilegum hlutföllum af ýmsum stærðum og gerðum. Þeir eru mislangir, t.d. er lengsti kubbur fjórum sinnum lengri en grunn einingakubburinn o.s.frv.

Skólanámskrá

Læsisstefna Jörfa